Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Um mansal á Íslandi

Lítið hefur verið rætt um það opinberlega hvort fórnarlömb mansals sé að finna hér á landi og því alls þaðan af síður verið slegið föstu. Hins vegar hafa aðilar sem starfa fyrir ýmis frjáls félagasamtök og stofnanir hitt þau fyrir. Mansal er meðal þeirra glæpa sem hvað erfiðast hefur reynst að uppræta ekki síst vegna þess hve föst tök glæpamennirnir hafa á fórnarlömbum sínum og þess hve treglega gengur að fá almenning til að horfast í augu við að þetta er staðreynd.

Á nýlegum fundi samstarfsaðila í þriggja ára tilraunaverkefni sem miðar að samvinnu milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, til að koma á stuðningsúrræðum og vernd fyrir fórnarlömb mansals í kynlífsiðnaði kom það berlega fram að mansal teygir anga sína hingað. Á fundinum staðfestu m.a. fulltrúar Alþjóðahúss, Kvennaathvarfs, Stígamóta, lögreglunnar og félagsþjónustunnar að hafa talað við fórnarlömb mansals hér á landi og í öllum tilvikum voru þau fleiri en eitt. Þetta var fullyrt þrátt fyrir að beitt væri afmarkaðri og þröngri skilgreiningu á mansali og tekið mið af gátlista sem Norðmenn hafa sett saman til aðstoðar þeim sem líklegt er að hafi, starfs síns vegna, afskipti af fórnarlömbum mansals.

Væntanlega hefur fólk mjög mismunandi hugmyndir um hvað mansal er. Flestir setja það í samband við frelsissviptingu, ofbeldi, þvingun og skipulagða glæpastarfsemi. Allt þetta á vissulega við en mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að samkvæmt Palermó-viðaukanum um mansal, sem gerður var við samning Sameinuðu Þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, skiptir samþykki einstaklingsins ekki máli ef beitt er þeim aðferðum sem þar eru taldar upp. Þess vegna skiptir ekki máli hvernig það bar til að kona er í vændi eða veitir aðra kynlífsþjónustu, ef einhver hagnýtti sér bága stöðu hennar til þess að leiða hana út í það.

Þvingun er því af ýmsum toga. Menn geta nýtt sér fátækt og úrræðaleysi annarra, fíkn þeirra í eiturlyf eða beitt hótunum. Algengt er að konum sé sagt að þeir sem hafa ráð þeirra í hendi sér viti hvar fjölskyldur þeirra búi og því eigi þeir auðvelt með að nálgast hana. Enn fremur þarf ekki að vera um skipulagða starfsemi að ræða á bak við mansalið heldur getur einnig verið um einstaklinga ræða. Þess eru jafnvel dæmi að fjölskyldumeðlimir geri út náin skyldmenni.

Á öllum Norðurlöndum öðrum en Íslandi hefur verið gerð aðgerðaáætlun til aðstoðar fórnarlömbum mansals. Svíþjóð hefur að vísu enn ekki lagt fram sína áætlun en það verður gert nú í desember. Brýnt er að sem fyrst verði gengið frá slíkri aðgerðaáætlun hér á landi enda afar brýnt að vernda og aðstoða fórnarlömb mansals eins og framast er unnt. Skal, í þessu sambandi sérstaklega vísað til 6. gr. Palermó-viðaukans, en þar segir m.a. að stjórnvöld skuli vinna í samvinnu við frjáls félagasamtök og aðrar viðeigandi stofnanir og einkaaðila til þess að tryggja fórnarlömbum mansals ráðgjöf og upplýsingar, um réttarstöðu þeirra á tungumáli sem einstaklingurinn skilji. Hér á landi er því ekki hægt að bjóða fórnarlömbum mansals raunhæf stuðningsúrræði, hvort sem um ræðir félagsleg eða lagaleg svo þau geti aftur náð fótfestu í lífinu og tekið þátt í samfélaginu á ný.