Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Einstaklingsfyrirtæki (firma)

Ábyrgð: Einstaklingsfyrirtæki er fyrirtæki sem einn aðili á og rekur á eigin kennitölu. Ábyrgð eigandans á skuldbindingum rekstursins er bein og ótakmörkuð.

Skráning:  Skrá þarf einstaklingsrekstur í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og skal það gert hjá sýslumanni í því umdæmi þar sem skrifstofa rekstrarins er. 


Sameignarfélög

Ábyrgð: Sameignarfélag er fyrirtæki þar sem eigendur eru tveir eða fleiri. Ábyrgð eigenda á skuldbindingum félagsins er bein, óskipt og ótakmörkuð. Bein ábyrgð þýðir að kröfuhafar geta gengið beint að persónulegum eigum eigenda og þurfa því ekki fyrst að reyna að fá greitt hjá félaginu sjálfu. Óskipt ábyrgð þýðir að hver eigandi fyrir sig ábyrgist allar skuldir félagsins -  og með ótakmörkuðum hætti þýðir að eigandinn gerir það með öllum sínum eigum.

Mikilvægt er að eigendur geri nákvæman og ítarlegan stofnsamning við upphaf rekstrar. Þar ætti til dæmis að koma fram hvert stofnframlag hvers eiganda er, hvernig skipta á tapi eða hagnaði af rekstrinum, hvernig ákvarðanir skuli teknar ef eigendur eru ekki sammála. Stofnsamningur er venjulega bara bindandi milli eigenda sameignarfélagsins en takmarkar ekki fulla ábyrgð hvers eiganda gagnvart öðrum.

Skráning: Sameignarfélag skal skrá í firmaskrá hjá sýslumanni þess umdæmis þar sem skrifstofa rekstursins er og fást eyðublöð til skráningar þar. Skrá þarf nöfn og heimili allra félagsmanna við skráningu og upplýsa hver geti skuldbundið félagið með undirskrift. Fyrirtækið þarf að fá kennitölu og sér ríkisskattstjóri um að úthluta henni gegn framvísun skráningarkvittunar frá sýslumanni. Þá þarf að greiða 2% stimpilgjald af stofnfé sem félaginu er lagt til. 


Hlutafélög

Ábyrgð: Hlutafélag er sú tegund félagaforms þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Fjárhagsleg ábyrgð þeirra er takmörkuð við það hlutafé sem þeir leggja fram. Eigendur hlutafélaga eru nefndir hluthafar og er framlagi þeirra skipt í eignarhluti og réttindi þeirra og áhrif fara eftir hlutaeign. Hlutafélög geta verið tvenns konar; annars vegar hlutafélög (hf.) og hins vegar einkahlutafélög (ehf.). Hf.-formið hentar fyrst og fremst fyrir stærri og viðameiri rekstur sem markmiðið er að skrá í kauphöll.

Fjöldi hluta og lágmarkshlutafé: Hlutafé í hf. skal skipt í tvo eða fleiri hluti og skal vera minnst fjórar milljónir króna. Einn eða fleiri hluthafar geta átt hf. en lágmarkshlutafé er fimm hundruð þúsund krónur.

Stofnun og greiðsla hlutafjár: Við stofnun hlutafélags skuldbinda væntanlegir hluthafar sig til þess að greiða það hlutafé sem þeir skrá sig fyrir, innan tilskilins tíma. Ef greiða á fyrir hluti með öðru en peningum þarf að tiltaka það sérstaklega í stofnsamningi og sérfróðir aðilar skulu meta verðmæti greiðslunnar. Þannig mætti til dæmis greiða hlutafé með tölvu- og tækjabúnaði, bókasafni, skrifstofuhúsgögnum og þ.h. Í hf. eru gefin út sérstök hlutabréf sem uppfylla venjulegast skilyrði viðskiptabréfa. Hlutabréf eru hins vegar ekki gefin út í einkahlutafélögum, heldur er látið nægja vottorð úr hlutaskrá félagsins, um eignaraðild og jafnvel hlutaskírteini.

Skráning félags: Hlutafélag skal tilkynna til skráningar hjá Hlutafélagaskrá (fyrirtækjaskrá) hjá Ríkisskattstjóra, Laugavegi 166, Rvk. innan tiltekins tíma en óskráð félag getur hvorki fengið réttindi né borið skyldur. Hf. skal tilkynna til skráningar innan sex mánaða frá dagsetningu stofnsamnings og skal þá minnst helmingur hlutafjár vera greiddur. Ehf. skal skrá innan tveggja mánaða frá dagsetningu stofnsamnings og skal þá allt hlutafé vera greitt. Einnig þarf að tilkynna til Hlutafélagaskrár ýmsar ákvarðanir og breytingar á áður tilkynntum upplýsingum (s.s. stjórn, tilgangi, hækkun eða lækkun hlutafjár). Þá þarf að senda ársreikninga og ársskýrslu ásamt skýringum. Tilkynningar skulu fara fram á sérstökum eyðublöðum og er gjald innheimt fyrir skráningar.

Stofngögn: Við stofnun og skráningu hlutafélaga þarf að skila stofnskrá/stofnsamningi, samþykktum og stofngerð/stofnfundargerð með skráningareyðublaði til ríkisskattstjóra. Þar sem það á við þarf skýrsla, um mat á eignum líka að fylgja.  Í ehf. eins aðila er talað um stofnskrá en í félögum fleiri aðila stofnsamning.

Hluthafar: Aðalreglan í félögum er að allir hlutir í félaginu hafi jafnan rétt og er þá yfirleitt miðað við fjárhæð hluta. Það má þó breyta þessu með ákvæðum í samþykktum félags og skipta hlutum í flokka, t.d. þannig að hlutir eigi mismunandi rétt til arðs eða beri mismunandi atkvæðisrétt.

Stjórnun félaga: Í félögum eru almennt þrjár stjórnareiningar; hluthafafundur, stjórn og framkvæmdastjóri. Hluthafafundur, sem allir hluthafar hafa rétt til að mæta á, fer  með æðsta vald í félögum og hefur einn vald til þess að taka ákveðnar lykilákvarðanir, svo sem kjósa stjórn, staðfesta ársreikninga og ákveða hvað eigi að gera við hagnað eða tap af rekstri. Stjórn félags stýrir félaginu á milli hluthafafunda, mótar stefnu til lengri tíma og hefur eftirlit með störfum framkvæmdastjóra. Í hf. skulu stjórnarmenn vera minnst þrír. Í ehf. geta stjórnarmenn verið einn eða tveir ef hluthafar eru fjórir eða færri. Framkvæmdastjóri félags stjórnar daglegum rekstri þess. Í hf. skulu alltaf vera einn til þrír framkvæmdastjórar en í ehf. þarf ekki að ráða framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórar mega líka sitja í stjórn félags en mega þó ekki vera í meirihluta nema í ehf., í tilvikum þar sem einn eða tveir menn sitja í stjórn.


Samlagsfélög

Að lokum er rétt að nefna samlagsfélög - n.k. blöndu af sameignarfélagi og hlutafélagi þar sem að minnsta kosti einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags en aðrir geta borið takmarkaða ábyrgð miðað við tiltekna fjárhæð eða hlutfall. 

Starfsleyfi

Líklegt er að rekstur sem stofna á til þurfi á sérstökum leyfum eða réttindum að halda. Starfsleyfi geta kallast ýmsum nöfnum, t.d. leyfi, eftirlit, sveins- eða meistarabréf, skráning, löggilding, skipun, vottun o.fl. Þessi leyfi eru nauðsynleg viðurkenning yfirvalda svo að reksturinn geti hafið starfsemi sína.

Verslunarleyfi
Þarf ekki lengur en þó má ekki hefja verslun nema atvinnurekstur sé skráður í firmaskrá, hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá o.s.frv. eftir því sem við á.

Leyfi frá Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd
Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 gera ráð fyrir að Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gefi út starfsleyfi fyrir og hafi eftirlit með mengandi rekstri og rekstri sem snertir hollustuhætti.

Heilbrigðiseftirlit
Þær stofnanir sem taldar eru upp í fylgiskjali 1 við reglugerð, um heilbrigðiseftirlit nr. 941/2002 (sjá www.reglugerd.is) skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd. Venjulega verður að sækja um starfsleyfi heilbrigðisnefndar í viðkomandi sveitarfélagi eða, í einstaka tilfellum, leyfi Umhverfisstofnunar áður en rekstur hefst. Flestar tegundir fyrirtækja þurfa að sækja um leyfi af þessu tagi en helstu undantekningar eru ýmiss konar þjónustustarfsemi, s.s. skrifstofu- og bankastarfsemi.

Mengunarvarnir:
Umhverfisstofnun sér um mengunarvarnareftirlit með atvinnurekstri sem talinn er upp í fylgiskjali 1 og I. viðauka reglugerðar um mengunarvarnir nr. 785/1999. Viðkomandi heilbrigðisnefnd sér um mengunarvarnareftirlit og má innheimta gjald af eftirlitsskyldri starfsemi. Gjaldskrár eru birtar í B-deild stjórnartíðinda sjá  www.stjornartidindi.is.

Matvælaeftirlit:
Þeir sem framleiða eða dreifa matvælum skulu hafa starfsleyfi. Heilbrigðisnefndir undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, sjá um útgáfu og eftirlit með slíkum leyfum og þarf að sækja um þau áður en starfsemi hefst og þegar eigendaskipti verða.

Leyfi frá Vinnueftirliti ríkisins
Samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verða allir sem ætla að hefja rekstur fyrirtækis eða breyta rekstri eldra fyrirtækis, að fá  umsögn Vinnueftirlits ríkisins um hvort hin fyrirhugaða starfsemi sé í samræmi við lögin og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Nauðsynleg  eyðublöð fást hjá Vinnueftirlitinu, Bíldshöfða 16, Reykjavík og á heimasíðu eftirlitsins: www.vinnueftirlit.is .


Iðnaðarleyfi

Samkvæmt iðnaðarlögum má enginn reka iðnað í atvinnuskyni hér á landi nema hann hafi fengið leyfi til þess. Til iðnaðar telst bæði handiðnaður og verksmiðjuiðnaður, hvaða efni eða orka, vélar eða önnur tæki sem notuð eru og hvaða vörur eða efni sem framleidd eru. Heimilisiðnaður  er þó undanþeginn ákvæðum laganna. Iðngreinar sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð iðnaðarráðherra skulu alltaf reknar undir forstöðu meistara. Rétt til iðnaðarstarfa í slíkum iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni. Það er lögreglustjóri í hverju, umdæmi sem veitir meistararéttindi og iðnaðarleyfi.


Löggilding

Löggilding starfsheita tryggir að handhafi leyfisbréfis uppfyllir ákveðnar kröfur um menntun og hæfni. Dæmi um starfsstéttir sem hafa löggilt starfsheiti eru arkitektar, húsameistarar og byggingafræðingar, hagfræðingar, iðnfræðingar, raffræðingar, skipulagsfræðingar, tæknifræðingar, tölvunarfræðingar, verkfræðingar og verðbréfamiðlarar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitir til dæmis ofangreind starfsleyfi. Fasteignasalar fá hins vegar löggildingu hjá dómsmálaráðuneytinu, vigtarmenn hjá Löggildingarstofu, o.s.frv.


 

Ýmsar upplýsingar

Til athugunar:
Fyrirtæki sem greiðir laun þarf að skrá á launagreiðendaskrá hjá ríkisskattstjóra eða skattstjóra viðkomandi umdæmis að lágmarki átta dögum áður en starfsemi hefst. Þá þarf fyrirtæki sem ætlar að stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi að tilkynna um það til skattstjóra viðkomandi umdæmis og fá úthlutað hjá honum virðisaukaskattsnúmeri áður en starfsemi hefst. Skattprósenta einstaklingsfyrirtækja er sú sama og hjá einstaklingum.

Nánari upplýsingar: Eyðublöð, sýnishorn að stofngögnum og annað ítarefni má finna á vef ríkisskattstjóra, www.rsk.is, viðskiptaráðuneytisins, www.vidskiptaraduneyti.is (undir afgreiðsla)  og Impru nýsköpunarmiðstöðvar, www.impra.is.

Lög og reglugerðir um fyrirtækjarekstur

lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög

lög nr. 2/1995, um hlutafélög,

lög nr. 22/1991,, um samvinnufélög

lög  nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir

lög nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð,

lög nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá

lög nr.  90/2003, um tekjuskatt og eignaskatt

lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit

lög nr. 42/1978, um iðnað

Lög nr. 28/1998, um verslunaratvinnu

lög nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og

hönnunargreinum.

 

reglugerð nr. 474/2003, um útgáfu kennitölu við skrásetningu í fyrirtækjaskrá.

reglugerð nr. 785/1999, um mengunarvarnir,

reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti,

reglugerð nr.522/1994, um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu

reglugerð nr. 940/1999, um löggiltar iðngreinar.


 

Forsíða Upplýsingaefni Fræðsluefni Stofnun fyrirtækja á Íslandi