Kvennaráðgjöfin

  • flower
  • flower2
  • flower3

Skilnaður

Ef bæði eða annað hvort hjóna/samvistarmaka óska skilnaðar ber samkvæmt íslenskum lögum að veita þeim hann. Með öðrum orðum, þó annað hjóna/samvistarmaka vilji ekki skilja kemur það ekki í veg fyrir að skilnaður gangi í gegn en það getur hins vegar tafið gang málsins. Leyfi til skilnaðar að borði og sæng og til lögskilnaðar veita sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra ef samkomulag er um skilnaðinn. Að öðrum kosti ber að leita skilnaðar hjá dómstólum.


Í íslenskum rétti er greint á milli skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar.

 


Skilnaður að borði og sæng 

Ef annað eða bæði hjóna/samvistarmaka eiga ósjálfráða barn, sem þau hafa forsjá fyrir skulu þau leita til prests eða löggilts forstöðumanns þess trúfélags sem þau tilheyra, um sættir. Ef annað hjóna/samvistarmaka eða bæði eru utan trúfélaga eða ef hvort um sig tilheyrir sínu trúfélagi, geta sýslumaður eða dómari leitað um sættir, eftir því hvor hefur málið til meðferðar.

Skriflegur fjárskiptasamningur milli hjóna/samvistarmaka eða úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti til fjárslita fari fram þarf að liggja fyrir áður en skilnaður að borði og sæng er veittur.

Samkvæmt hjúskaparlögum er helmingaskiptareglan meginreglan um fjárskipti milli hjóna/samvistarmaka. Þó má veita undantekningar þar á ef helmingaskipti yrðu "bersýnilega ósanngjörn" fyrir annað hjónanna/samvistarmakanna. Á það við um tilvik þar sem hjúskapur/staðfest samvist hefur varað stutt og/eða annar aðilinn hefur lagt verulega meiri eignir í búið við hjúskaparstofnun, hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum. 

 

Lögskilnaður

Ef hjón/samvistarmakar eru sammála um að óska eftir lögskilnaði, geta þau/þeir fengið hann sex mánuðum eftir að leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng var gefið út. Að öðrum kosti má hvor/t hjónanna/samvistarmakanna sem er krefjast lögskilnaðar þegar liðnir eru tólf mánuðir frá því að skilnaður að borði og sæng var veittur.

Lögskilnaður verður ekki veittur nema að undangengnum skilnaði að borði og sæng nema í eftirfarandi tilvikum:

a)   Ef annað/annar hjóna/samvistarmaka hefur orðið uppvíst að hjúskaparbroti eða atferli sem má jafna til þess;
b)   ef annað/annar hjóna/samvistarmaka hefur orðið uppvís/t að líkamsárás eða kynferðisbroti sem bitnar á barni á heimilinu, eða ef maki hefur sýnt af sér atferli sem fallið er til að vekja alvarlegan ótta um að hann gerist sekur um slíkan verknað;
c)   ef hjón/samvistarmakar slíta samvistir vegna ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið minnsta. 



Helmingaskiptareglan gildir ekki ef hjón/samvistarmakar hafa gert kaupmála sín á milli um að tilteknar eignir búsins skuli vera séreignir annars hvors/beggja hjóna/samvistarmaka. Þá verða gjafir séreign, ef þær eru gefnar öðru hjónanna/samvistarmakanna með því skilyrði að þær skuli verða séreign þess eða ef kveðið er á í erfðaskrá að arfur sem fellur til annars hvors hjóna skuli vera séreign þess. 

Gagnkvæm framfærsluskylda hjóna/samvistarmaka helst eftir skilnað að borði og sæng og skal taka ákvörðun um skyldu hjóna/samvistarmaka til að greiða lífeyri hvor/t með öðru/m og um fjárhæð hans áður en skilnaður að borði og sæng er veittur. Þá skal einnig vera samkomulag um forsjá barna og greiðslu meðlags með þeim. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að skilnaður að borði og sæng verði veittur að kröfu annars hjóna/samvistarmaka þó ekki náist sátt um framangreind atriði ef önnur skilyrði eru fyrir hendi.

Önnur réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng eru t.d. þau að trúnaðarskylda milli hjóna/samvistarmaka fellur niður, erfðaréttur þeirra í milli og samvistaskylda. Taki hjón/samvistarmakar upp samvistir að nýju á meðan að skilnaður að borði og sæng varir, falla réttaráhrif hans niður nema um sé að ræða skammvinna tilraun til að hefja samvistir að nýju.  Hjónum/samvistarmökum er óheimilt að giftast að nýju á meðan aðeins hefur verið veittur skilnaður að borði og sæng. Hjúskap/staðfestri samvist er ekki slitið fyrr en lögskilnaður hefur verið veittur.